Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ófullkomið innheimtukerfi virðisaukaskatts.

Fyrir um 25 árum, er ég starfaði sem sérfr. hjá Þjóðhagsstofnuninni sálugu, var ég sendur í læri til Danmarks Statistik í Kaupmannahöfn. Reyndar ekki til að læra um vsk, heldur um gerð svonefndra vöruflæðisreikninga í þjóðhagsreikningagerð. En þar sá ég m.a. hvernig kerfi virðisaukaskatts og innheimta hans var uppbyggt hjá frændum vorum. Í veigamiklum atriðum var það á allt annan og betri veg en hér á landi. Ég gerði mér far um að benda skattinum og fjármálaráðuneytinu á þetta – án árangurs.

Meginmunurinn er þessi:

1. Ekki allir fá leyfi til innsköttunnar, aðeins stærri aðilar sem hafa undirgengist ákveðna úttekt.

2. Aðrir, sérstaklega lítil fyrirtæki, byrjendur og einyrkjar innskatta ekki sjálfir. Þeir fá sérstök reikningseyðublöð eða tölvukerfi, sem eru þannig útbúin að verkkaupin þarf að gera grein fyrir og skila innskattinum vegna viðskipta við þá. Þetta er mun einfaldara og öruggara heldur en að leyfa/skipa öllum fyrirtækjum að innskatta sjálf.

Í gamla Fjölni bókhaldskerfinu (sem er vel að merkja danskur hugbúnaður og er forrennari Navasion, sem er geysi vinsælt á Íslandi) er sérstakur reitur fyrir VSK númer lánadrottna/birgja. Hann er til þess ætlaður að safna saman greiddum/reiknuðum vsk, sem er útskattur viðkomandi birgja en þinn innskattur. Mánaðarlega þurfa síðan þeir sem hafa leyfi til að innskatta að senda "RSK" yfirlit yfir hverjum þeir greiddu vsk (þeirra innskattur) og fyrir hverja þeir þurfa að standa skila á útskatti. Þetta er síðan samkeyrt miðlægt og mismunurinn ýmist innheimtur eða greiddur út hjá innheimtumanni. Ef þetta væri gert hér á landi væri því sem næst ómögulegt að stunda svindl eins og fréttin fjallar um og nokkuð reglulega koma fram í dagsljósið. Hið séríslenska Vsk-kerfi er í raun gamla söluskattskerfið með örlitlum breytingum. Það hefur í raun aldrei verið innleitt, tækinlega séð, virðisaukaskattkerfi á Íslandi, ekki til fulls.

Skil ekki hvernig ég nennti að skrifa þetta, fyrsta bloggið mitt í mörg herrans ár :).

J.  


mbl.is Ákærður fyrir 140 milljóna skattsvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland heldur áfram með tvöfallt gjaldmiðlakerfi, ólíkt Kúbu.

Mbl.is í dag 22.10.

Jæja Kúba var á undan Íslandi og hættir í dag með tvöfallt gjaldmiðlakerfi. Í frétt mbl.is segir m.a.: 

„Kerfið hefur aukið tekjudreifingu í landinu, en þeir sem hafa aðgang að Bandarískum dollurum, t.d. gegnum ferðaþjónustu, fá í raun mun hærri laun en þeir sem fá greitt í venjulegum pesó.“

Hér þarf bara að skipta út orðinu „pesó“ út og setja inn „krónum“ og þá gæti setningin alveg átt við Ísland, nema hvað við Íslendingar erum að þessu leyti ekki jafnheppnir og Kúbverjar.

  


Gleðileg jól Vilborg

Gott viðtal við afrekskonuna Vilborgu Gussurard. suðurpóslfara, sem reyndar hefði mátt enda með óskum um gleðileg jól.
mbl.is Vilborg rúmlega hálfnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur tvo ársfjórðunga í röð

Hreinn vöxtur vergrar landsframleiðslu milli I. ársfj. 2011 og síðasta ársfj. 2010 er 2,0% skv. nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands. Þetta eru auðvitað góðar fréttir. Vaxi landsframleiðslan einnig á yfirstandandi ársfjórðungi (mars, apríl, maí) þá getur Mæðradagsstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lýst því yfir í haust að kreppunni sé lokið - þ.e.a.s. samkvæmt hagfræðilegri skilgreiningu, en til þess þarf hagvöxtur að vera viðvarandi í minnst þrjá ársfjórðunga í röð. Vöxturinn var reyndar aðeins 0,4% á IV. ársfj. 2010 og lítið má út af bera til þess að tölurnar falli. 

Einn fyrir Landsdóm

Ég er handviss um að málaferli knapps meirihluta Alþingis gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra eiga eftir að draga dilk á eftir sér og verða þeim til ævarandi skammar sem harðast sóttu.

Bendi í þessu sambandi á góða grein e. Sigmund Erni Rúnarsson alþingismann á vef hans.

Hvet vini og vandamenn til að lesa vefinn malsvorn.is og skrá nafn sitt þar Geir til stuðnings.


0,4% hagvöxtur á IV. ársfjórðungi 2010 gefur von

Í byrjun desember skrifaði ég: "Nú er bara að sjá hvort myndarleg vaxtalækkun Seðlabankans hafi ekki tilætluð áhrif á fyrsta ársfj. 2011, en ólíklegt er að hagvöxtur mælist á síðasta ársfjórðungi 2010." Tölurnar eru komnar frá Hagstofu Íslands og reyndin er sú að vaxtalækkunin hafði fyrr áhrif en ég þorði að vona. Í fyrsta sinn frá hruninu mældist örlítill hagvöxtur eða 0,4%. Samdátturinn 2010 reyndist 3,5%. Samdráttur sem þessi þýðir í raun og sannleika að kjör okkar allra hafa að jafnaði versnað um 3,5%.

Ef hagvöxtur mælist í þrjá ársfjórðunga í röð er það talið merki um að samdráttarskeiði sé lokið. Mæðradagsstjórnin ætti nú, vilji hún minnka atvinnuleysið, að lækka virðisaukaskattinn í það sama og hann var áður og blása þannig lífi í glæðurnar. Ég endurnýti hér setningu frá því í pistlinum sem birtist 8. desember sl: "Hugmyndir sumra stjórnmálamanna um enn meiri skattlagningu gætu þó þurkað út jákvæð áhrif vaxtalækkunarinnar og stuðlað að áframhaldandi samdrætti í hagkerfinu." Lilja Mósesdóttir "hagfræðingur" er því miður helsti hvatamaður stjórnarþingmanna að aukinni skattheimtu, sem er óskiljanlegt ef hún er alvöruhagfræðingur, nema hún vilji beinlínis meira atvinnuleysi og meiri samdrátt. Getur það verið?


Vaxtamunurinn hjá Landsbankanum er 10,75%

Innvextir á venjulegum opnum reikningi hjá Landsbanka Íslands (þesum í nýja búningnum) eru nú 0,45% (þetta er ekki prentvilla). Skuldavextir á þessum sama reikningi eru hins vegar 11,20%! Vaxtamunurinn er 10,75%. Eins og oft áður í landi íslensku krónunnar, versta gjaldmiðils Evrópu eftir að ítalska líran hvarf, þá er nýðst á sparifjáreigendum en hinir (skuldararnir) sem eru svo óheppnir að fara yfir á reikningnum sínum eru rukkaðir um tæplega 12% vexti. Samkvæmt hagstofa.is var 1,9% verðbólga, feb. sl.

Jóhanna biðjist afsökunar eða segi af sér

Orð Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra úr ræðustóli Alþingis um að setja skuli sérstök lög til þess að snúa niðurstöðu Hæstaréttar, sem ógilt hefur stjórnlagaþingskosningarnar samdóma með fjölskipuðum dómi, eru atlaga að þrískiptingu valdsins (framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald) og sjálfstæði dómstóla. Þannig forsætisráðherra er varasamur landi og þjóð - þjóðinni sem henni er svo tíðrætt um. Ég skora á Jóhönnu að segja af sér og boða til alvörukosninga, og til vara að hún biðjist afsökunar.
mbl.is Meiriháttar áfall fyrir Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin hagvöxtur á III. ársfj. 2010 - því miður.

Í fréttinni virðist haft eftir Ágústi Valfells að hagvöxtur hafi mælst á nýjan leik í fyrsta sinn frá því fjármálahrunið reið yfir (væntanlega er átt við III. ársfj. 2010). Ég hef verið að fylgjast með þessum tölum á hagstofa.is allt árið og mér sýnist, því miður, að þetta sé rangt. Árstíðarleiðrétt verg landsframleiðsla á III. ársfjórðungi 2010 lækkaði um 2,1% milli 2009 og 2010. Sé ársbreytingin skoðuð eftir ársfjórðungum lækkaði landsframleiðslan um 1,6%. Sem sé enginn hagvöxtur, heldur áframhaldandi samdráttur. Heimild: hagstofa.is - tölulegar uppl.

Nú er bara að sjá hvort myndarleg vaxtalækkun Seðlabankans hafi ekki tilætluð áhrif á fyrsta ársfj. 2011, en ólíklegt er að hagvöxtur mælist á síðasta ársfjórðungi 2010. Hugmyndir sumra stjórnmálamanna um enn meiri skattlagningu gætu þó þurkað út jákvæð áhrif vaxtalækkunarinnar og stuðlað að áframhaldandi samdrætti í hagkerfinu.


mbl.is Ísland fór réttu leiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin er ánægð með lög nr. 33/1944

Afar lítil kosningarþátttaka í kosningunum til Stjórnlagaþings sýnir að góður meirihluti landsmanna telur ekki ástæðu til að ráðast í miklar breytingar á stjórnarskránni.  Ég er sammála þessu og tel reyndar að Alþingi skuli hér eftir sem hingað til sjá um þær, enda til þess kosið. Ef það ræður ekki við það, þarf að skipta út kjörnum fulltrúum á Alþingi, en ekki kjósa annað þing.

Ég kaus ekki vegna þess að ég átti í mestu vandræðum með að ákveða hverja 25 af þeim rúmlega 500 sem buðu sig fram ég ætti að velja. Fæstir virtust vita hverju þeir vildu breyta í stjórnarskránni. Einn auglýsti opinberlega: "Mannréttindi fyrir alla". Sú ágæta kona veit sennilega ekki að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar, laga nr. 33/1944, er frá 1995 og þykir einn besti kafli hennar!

Mér fannst deginum líka betur varið á gönguskíðum í Bláfjöllum, enda frábært veður. Kosningin var þó ekki til einskis, heldur góður undirbúningur fyrir rafrænar kosningar um allskyns minniháttar mál s.s. hvort leyfa eigi hunda og ketti hér og þar (t.d. í Garðabæ). Svo má ekki gleyma því að Mæðradagsstjórnin efndi með þessu eitt af kosningarloforðum sínum. Hún hefur þá allavega efnt eitt slíkt :)


mbl.is 36,77% kosningaþátttaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband