Myndir frá harðfiskátvaglinu

Harðfiskátvaglið
Það eru komnar inn myndir frá Kristni Þór bróðir. Ein myndin sýnir
skammtinn af harðfisk úr síðustu Íslandsheimsókn. Þetta er ekki til
endursölu heldur borðar (étur) hann þetta einn! 

Gæsavatnaleið

Við Urðarháls
Svokölluð Gæsavatnaleið er "aðeins fyrir innvígða jeppamenn", ef marka má orð Páls Ásgeirssonar í Hálendishandbókinni. Leiðin er sannarlega torfarin, og á köflum mjög seinfarin. En engar mjög brattar brekkur eða stórkostlegir faratálmar urðu á vegi okkar á leiðinni. Erfiðasta vaðið reyndist við Tómasarhaga skammt frá Nýjadal. Ferðin var farin um Verslunarmannahelgina. Lagt var að stað laust eftir hádegi á laugardegi frá hálendismiðstöðinni að Hrauneyjum og komið að tjaldstæðinu (ef tjaldstæði mætti kalla) við fjallið Dreka (við Öskjuskála) um klukkan níu um kvöldið. Þrátt fyrir spá um rigningu um allt land fengum við gott veður og þurrt, og ágætis útsýni. Farið var um svonefndar Flæður, sem stundum eru lokaðar heilu sumrin vegna vatnselgs frá Dyngjujökli. Fararskjótarnir voru óbreyttur Landrover Discovery og Nissan Pathfinder með 33" breytingu. Í Nýjadal slóust í hópinn tveir starfsmenn Latabæjar, Hollendingurinn og pródusentinn Rob, og eistnesk vinkona hans. Þau óku á óbreyttum MMC bílaleigubíl. Allt gekk vel, enda Magnús góður og varkár leiðangursstjóri. Gist var í tjöldum við Öskjuskála og seinni nóttina á Edduhótelinu að Laugabakka í Miðfirði. Eftir ferðina finnst mér landið vera stærra og tilkomumeira en áður. Myndir

Þýskaland tapaði

Þetta er svartur dagur. Þýskaland tapaði fyrir Ítölum enn einu sinni. Það verður að segjast eins og er að endirinn var þó glæsilegur hjá Ítölum, sem aldrei hafa tapað fyrir Þjóðverjum í heimsmeistarakeppni í fótbolta [Morgunblaðið í dag bls 30]. Fyrst mark á 118. mínútu og síðan annað á 120. mínútu. Það mátti sjá tár á hvarmi í stofunni í Bauganesi. Sem betur fer náði ég í sund fyrir lokun þar sem ég var fljótur að jafna mig meðal vina í pottinum, sem allir samhryggðust mér innilega. Sérstaklega Kristján fjallaskáld og nágranni, og Sigfús Már ljósmyndari. Nú held ég með Portúgal af því að frænka okkar býr í Lissabon og hana nú!


Modernus Gartenparty 2006

Háborðið

Fyrstu myndirnar eru nú loksins komnar inn. Það er ótrúlega seinlegt að moka þessu yfir til mbl? Modernus Gartenparty tókst mjög vel - eins og endranær - og nú er þetta orðin hefð segir Tryggvi stjórnarmaður, og bætti við að þetta væri orðið boðið sem maður biði eftir allt árið. Fleiri myndir koma inn þegar ég kem heim aftur frá Deutschland, en þar er meiningin að selja Germönnum þjónustu Modernus. 


Afmæli Finnboga

Funhouse

Jæja (mamma) nú er ég loksins búinn að setja inn myndir úr afmælinu hans Finnboga. Þú þarft að velja albúmið "afmælið hans Finnboga". http://jensen.blog.is/album/7araAfmaeliFinnboga/


Sjúkur nefskattur

Sjúkur skattur. Ég er hræddur um að úr þessu finni sjálfstæðismenn ekki leið út úr ógöngunum með nefskattinn fyrir RÚV hf. Þetta er orðið verulega pínlegt. Hvernig getur nefskattur samrýmst hugmyndum (okkar) sjálfstæðismanna? Það er erfitt að réttlæta nefskatta og ekki nokkur leið að réttlæta nefskatt til hlutafélags - þótt það sé í opinberri eigu. Eiginlega er engin leið að réttlæta nefskatt í venjulegu ástandi. Viðlagasjóður var fjármagnaður með nefskatti sem var settur á eftir gosið í Vestmannaeyjum 1973. Í þannig aðstæðum gengur þetta kannski, en ekki annars. Nefskattur er í eðli sínu afar gamaldags og ósanngjarn skattur. Af hverju? Af því hann tekur ekkert tillit til þess sem greiðir hann. Það eru m.ö.o. engin sérstök tengsl milli þess sem neytt er og þess sem greitt er. Það verða bara allir neyddir til þess að greiða skattinn til Rúv - hvort sem þeir horfa oft, stundum eða aldrei á rískissjónvarpið. Fyrst á að breyta stofnuninni í hlutafélag og síðan á hvert nef í landinu (eða svo gott sem) að greiða skatt til hlutafélagsins segir frumvarpið. Eini nefskatturinn sem ég þekki er sá sem margir eru minntir á þessa dagana ef þeir klára skattframtalið. Þetta er fimmþúsundkallinn sem fer í byggingarsjóð aldraðra. Munurinn á þessum nefskatti og nefskattinum til RÚV hf. er sá að allir vonast til þess að verða gamlir, en eingöngu sumir horfa á Rúv, ekki allir. Ef fram fer sem horfir þá dúkkar upp annar nefskattur í næsta skattframtali. Þar mun standa eitthvað á þessa leið: Árgjald til Ríkisútvarpsins h.f. kr. 8.500.- Og það er mikill munur á einni undantekningu og tveimur. Er hér etv að fæðast nýtt séríslenskt skattform sem eirir engum? Ungt fólk horfir minna og minna á sjónvarp, það er vitað. Það sækir sér efnið á Internetið og horfir á það þegar því hentar á eingin tölvu. "Algjört rugl" segir unga fólkið um nefskattinn, enda kemur hann til með að lenda harðast á þeim sem minnst horfa, þ.e á unga fólkinu - kjósendum morgundagsins. Mundu það Sigurður ungi Kristjánsson, 6. þingmaður Reykvíkinga.


Skaftafell

Í göngutúr
Frá Skaftafelli. Var að setja inn myndir frá Skaftafelli sem teknar voru um verslunarmannahelgina (mikið er þetta langt og leiðinlegt orð) 2005. Ferð í Skaftafell svíkur engan. Mikið voru þeir framsýnir sem gerðu svæðið að Þjóðgarði á sínum tíma. Þökk sé þeim. Myndirnar tala sínu máli. Tvær vinafjölskyldur eyddu helginni saman. Seint koma myndirnar inn en og þó, það er skemmtilegra að skoða svona myndir að nokkrum tíma liðnum. Og nú er hann liðinn. Myndir

Emily fædd 15.4. 2006

Emily

Emily Kristinsson

Hér er fyrsta myndin af nýjasta fjölskyldumeðliminum. Kristinn Þór sendi hana í morgun. Hún heitir Emily og fæddist 15. apríl eða tæpum mánuði fyrr en áætlað var. Þetta gerðist allt dálítið snöggt og litla frænka þurfti á smá hjálp að halda fyrstu dagana. En allt gekk vel og nú er hún laus við slöngur og hitakassa. Nicole og Emily eru þó enn á sjúkrahúsinu í Lüneburg en fá að fara heim bráðlega. Undir almbúmi Kristins má líka finna mynd af stórabróður Emily, honum Jónasi, sem verður þriggja ára 8. maí.


Egilsskarð

Hvað heitir þú tindur
Ég og Magnús félagi minn höfum sjaldan gengið á fjöll, en haft af því
mikið yndi þá sjaldan við höfum drifið okkur af stað. Myndirnar eru frá gönguferð okkar frá Bláfeldarhrauni í Staðarsveit yfir
í Grundarfjörð um Egilsskarð í október 2001.  Náttúran skartaði
sínu fegursta eins og myndirnar sýna svo vel. Njótið og ferðist með okkur í huganum, það virkar!

Attli Örn Jensen, yfirlitssýning

Atli Örn Jensen
Málarinn og frændi okkar Atli Örn Jensen (hann skrifar ávallt Attli) er
með yfirlitssýningu í Garðabergi, félagsheimili eldri borgara við
Garðatog. Sýningin er tileinkuð minningu Ninnu. Attli hefur fengist við
myndlist með hléum allt frá 1942, en hann stundaði á sínum tíma nám í
Frístundamálaraskólanum og var í læri hjá
Sigfúsi Halldórssyni og í bréfaskóla Handmenntaskólans. Attli málar
bæði pastelmyndir og olíuverk, oftast af austfirsku landslagi eftir
ljósmyndum sem hann tók á ferðum sínum um landið. Heimsókn í bílskúrinn
til Attla er tímans virði og nú fer hver að verða síðastur í þeim
efnum. Sýningin á Garðatorgi stendur út aprílmánuð og er opin frá hálf
eitt til hálf fimm alla virka daga. Myndin með fréttinni er fengin hjá visir.is.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband