Sammála Gylfa

Hinn grandvari og góði háskólakennari, dr. Gylfi Magnússon, er einn af þessum mönnum sem fær fólk til að sperra eyrun þegar hann tjáir sig um efnahagsmál. Það er því frétt í sjálfu sér þegar hann sendir bankaráði Seðlabanka Íslands (SÍ) og bankstjórninni tóninn og segir peningastefnu bankans hafa beðið skipbrot. Það er skelfilegt til þess að hugsa að stýrivextir á Íslandi skuli vera orðnir hærri en í Tyrklandi, sem er þriðjaheims ríki, og langhæstir í Evrópu. Hvað veldur þessu? Því verður bankastjórn SÍ að svara. Síðustu tvær hækkanir á stýrivöxtum hafa engin áhrif haft enn sem komið er. Ef gengið styrkist ekki á næstunni erum við Íslendingar komnir í öngstræti með krónuna. Færa má rök fyrir því að hækkunin í dag, sem kemur í kjölfarið á methækkun fyrir nokkrum dögum, sendi fremur skilaboð um taugatitring og úræðaleysi bankastjórnarinnar - þvert á það sem íslenska krónan þarf á að halda - en skilaboð um fasta og trúverðuga mótspyrnu. Í svona ástandi eru væntingar markaðsaðila langsterkasti þátturinn. Gylfi benti í fréttum Rúv á að sjö ár eru liðin án þess að hávaxtastefna SÍ hafi skilað okkur árangri. "Þetta er fullreynt" sagði Gylfi.

Fyrir nokkrum árum bárust fréttir frá Nýjasjálandi af árangurstengdum kjörum seðlabankastjóra. Er ástæða fyrir okkur til að skoða þannig fyrirkomulag? Er ráð að leita til sérfræðinga sem getið hafa sér gott orð eins og bent hefur verið á? Ég sting upp á Gylfa Magnússyni. Fólk treystir honum. Hann hefur einfaldlega þannig fas, ólíkt sumum í SÍ og á ég þá ekki við stjórnmálamanninn.

Verðbólgan er versti óvinur launþegans og þeirra sem leggja til hliðar. Hún étur upp sparnaðinn dregur þar með úr sparnaði smát og smátt þrátt fyrir háa vexti og verðtryggingu. Bílasalan fyrstu tvo mánuði ársins sýnir að almenningur er, þegar allt kemur til alls, ansi klókur. Hann hefur fundið á sér að gengið myndi falla og því drifu margir í að endurnýja fjölskyldubílinn í upphafi árs. Væntingar almennings reyndust réttar. Fyrir aðeins um 10 árum voru Spánn, Ítalía og Grikkland þekkt verðbólgulönd í Evrópu. Þau tóku upp Evruna og verðbólgan hjá þeim lækkaði í kjölfarið. Hún er að vísu nokkuð hærri en í mið Evrópu, en samt um helmingi lægri en á Íslandi. Í erlendum kennslubókum í hagfræði var Ísland ávallt í hópi með suðurevrópskum og suðuramerískum löndum í kaflanum um verðbólgu. Vonandi rötum við ekki þangað aftur.


mbl.is Vextir fara í 15,75%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband