3.6.2009
Verðbólgan er vandinn
Vandinn liggur fyrst og fremst í allt of veikum gjaldmiðli og mikilli verðbólgu. Fyrst þarf að ná tökum á þessu tvennu. Lækkun stýrivaxta niður fyrir síðustu verðbólgumælingu (um 12%) myndi auka verðbólguna. Það má ekki gerast. Verðbólgan er höfuðvandinn, sem við verðum að ná tökum á áður en vextirnir verða lækkaðir frekar. Ef við gerum þetta í öfugri röð er voðinn vís.
Verðbólga, vextir og gengi eru eins og þríburar (peningahagfræði fyrir byrjendur).
Nauðsynlegt er að nafnvextir séu hærri en verðbólga á hverjum tíma. Séu þeir jafn háir fær lánveitandinn enga áhættupremíu, séu vextirnir lægri en verðbólgan fær lánveitandinn minni verðmæti greidd til baka en hann lánaði. Eina færa leiðin í þannig ástandi, til að forðast rýrnun peningalegra eigna, er að breyta yfir í gjaldmiðil sem býður hærri vexti. M.a. þess vegna lækkar krónan um þessar mundir.
Séu vextirnir að frádreginni verðbólgu hér á landi lægri en í öðrum löndum, samfara töluverðri hættu á útlánatapi, er frekari veiking krónunnar óhjákvæmileg. Fá ef nokkur önnur lögmál í hagfræði standast jafn vel og þessi sem hér eru tíunduð. Vextir, verðbólga og gengi gjaldmiðla eru kraftar af sama meiði. Líkt og þríburar taka þeir ætíð mið hvor af öðrum og geta ekki annað.
Lágvaxtasvæði (t.d. Sviss og Japan) einkennast af tveimur þáttum hið minnsta: Stöðugri og lágri verðbólgu annars vegar, og lítilli hættu á útlánatapi hins vegar. Þessu tvennu er ekki fyrir að fara á Íslandi og því er frekari vaxtalækkun ótímabær - því miður.
Vonandi stenst peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þrýstinginn frá samtökum atvinnurekenda og launþegasamtökunum. Lækki vextirnir niður fyrir verðbólgu er voðinn vís. Það er jafn víst og að nótt fylgir degi.
Höfundur er þjóðhagfræðingur frá háskólanum í Hamborg og fyrrum sérfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun.
Peningastefnunefnd í klemmu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég gef nú ekki mikið fyrir svona hagfræði.
Í fyrsta lagi er ekki nauðsynlegt að vextir séu hærri en verðbólga á hverjum tíma. (sjá USA)
Það er ekki samræmi í því að miða vexti sem á að borga í framtíðinni, við verðbólgu sem var í fortíðinni. Þá er ekki verið að skoða sama tímabil.
Auk þess segja allir að krónan sé of lágt skráð til langs tíma litið, sem er svo sem augljóst ef vöruskiptajöfnuðurinn er skoðaður. Þannig að í raun eru vextir allt of háir hér.
Sigurjón Jónsson, 3.6.2009 kl. 13:39
Áhugavert, hérna kemst þú að því að kenningin um vaxta- og verðjöfnuður (http://en.wikipedia.org/wiki/Interest_rate_parity) haldi hér á íslandi.
Geturðu bent mér á gögn þess til staðfestingar?
Ég skil fræðina nokkuð vel og tel að hún ætti a lýsa efni sínu nokkuð vel. En ég hef ekki séð neitt því til staðfestingar. Ég skrifaði einmitt ritgerð um interest rate parity og hvernig sú kenning virkaði hér á landi og niðurstaðan benti til þess gagnstæða - að þessi kenning virkar ekki hér. Það mætti helst rekja til þess að búið sé að saxa niður allt áhrifavald í efnahagsmálum niður í 'sjálfstætt starfandi einingar' - þannig að úr urðu gagnslausar stofnanir. Tala nú ekki um aukin vandamál sem fylgja því að sveitafélögin eru jafnvel 'of' sjálfstæð.
Hvernig er það, er Friedmanninn bara tekinn upp og sagt lago eða? Ef það á að keyra á einhverju hagfræðimódeli, er þá ráðist í nægar kerfislegar breytingar til þess að módelið keyri rétt?
Ólafur Hlynsson (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 13:59
Þessa kenningu hef ég heyrt áður og við fyrstu sýn rökrétt en spurning hvort að kenningin eigi ekki við þegar efnahagurinn er ekki í jafnvægi og stýrður með gjaldeyrishöftum og því er t.d. stærð eins og gengi ekki lengur rétt. Ef að nánar er skoðað kemur einnig í ljós að nafnvextir hafa áhrif á verðbólguna og því er það spurning ef að ein stærð er takmörkuð (vegna gjaldeyrishafta) hvort að háir vextir sé einmitt ekki stórhættulegir fyrir hagkerfið og fyrir þá sem að eru innan þess hagkerfis?
Afhverju lækkuðu flest evrópuríki vextina undir verðbólguna, í kringum 1% á meðan að verðbólgan var um og yfir 5%? Voru þeir að stofna hagkerfinu í hættu, eða liggja aðrar ástæður að baki?
Stefán Einarsson, 3.6.2009 kl. 16:05
Í fyrstu setningunni á ég auðvitað við hvort að þessi kenning haldi þegar efnahagskerfið er ekki í jafnvægi, eins og á Íslandi nú vegna gjaldeyrishaftanna.
Stefán Einarsson, 3.6.2009 kl. 16:08
Sæll Jens vel skrifuð grein. Þú segir: ,,Nauðsynlegt er að nafnvextir séu hærri en verðbólga á hverjum tíma". Það er vissulega nauðsynlegt a.m.k. til lengri tíma. Þú segir síðustu veðbólgumælingu vera um 12%, það erum við hins vegar algjörlega ósammála. Þegar vísitala neysluverðs var skoðuð 12 mánuði aftur í tímann, var hækkunin 11,9%, það þýðir hins vegar alls ekki að verðbólga nú sé 11,9%.
Miðað við það hrun sem hér hefur verið er mikil ónákvæmni að mæla verðbólgu 12 mánuði aftur í tímann. Ef við skoðum hækkun 3 mánuði aftur í tímann og reiknum það upp til 12 mánaða er verðbólga 1,4% og þá verður að geta þess að gengið veiktist um einhver 10% á þessum 3 mánaða tíma. Skoðun á þróun þriggja mánaða gefur miklu sannari mynd við þær aðstæður sem við búum við.
Það þarf enga sérstaka sérfræðinga til þess að komast að því að hér er engin undirliggjandi verðbólga, heldur verðhjöðnun.
Vaxtastig er notað annars vegar til þess að stuðla að vexti í hagkerfinu eða til þess að draga úr þenslu. Þess vegna er mjög mikilvægt að stýritækin séu notuð miðað við aðstæður hverju sinni, en ekki miðað við ,,sögulegar staðreyndir".
Sigurður Þorsteinsson, 3.6.2009 kl. 19:27
Sælir og takk fyrir ágætar athugasemdir.
1. Um verðbólguhraðann. Á vefnum hagstofa.is undir liðnum Fréttir (efst) og undir frétt nr. 94/2009 má sjá hvernig vísitala neysluverðs hefur þróast í hverjum mánuði og ársfjórðungi frá 2008. Neðarlega í töflunni undir fréttinnni (sjá slóð neðar í þessu svari) má sjá að tekið er mið af maí mánuði eingöngu þá blasir sú dapra staðreynd við að verðbólga þess mánaðar reiknuð til heils árs er 14,4%. Hins vegar er verðbólgan síðustu 3 mánuði aðeins 4% og 7,4% sl. hálft ár. Ef reikna á eins mánaðar verðbólgu upp til eins árs er það mánaðartalan í fjórða veldi.
Margir, þ.á.m. Seðlabankinn, höfðu spáð því að húsnæðisliðurinn myndi lækka skart á fyrstu mánuðum ársins og hraðar eftir því sem á árið liði. Þetta varð ekki reyndin og hefur eftir því sem ég man best ekki orðið frá stríðslokum á Íslandi. Verðbólguskotið í maí er trúlega eins og þú segir Sigurður aðalega vegna lækkandi gengis og vonandi stakur afturkippur, sem þó verður að horfast í augu við. Af þessu leiðir að skörp vaxtalækkun nú yrði aðeins til að tendra þennan (vonandi veika) verðbólguneysta sem kviknaði í maí. Betra er að slökkva hann strax og bíða aðeins með frekari lækkun stýrivaxta. Ég er sammála því að þegar verðbólga lækkar hratt líkt og á fyrsta ársfjórðungi þá þarf SÍ að horfa sérstaklega til þess, en maímánuður olli vonbrigðum sem ekki má horfa framhjá.
2. Um samband vaxta og gengis. Fisher áhrifin (effect) svokölluðu sem Ólafur nefnir lýsa því, ef ég man það rétt, hvernig eftirspurn og framboð eftir fjármagni (í frjálsum hagkerfum þar sem fjármagnsflutningar eru leyfðir) jafna út vaxta og gengismun milli landa yfir tíma. Ágætt dæmi um virkni þessara krafta má t.d. sjá í lántökum Íslendinga í Japan og fjárfestingum Þjóðverja á Íslandi undanfarin ár. Við sóttum í erlend lán í lágvaxtamynntum (t.d. japönsk lán) og treystum á að hátt gengi krónunnar myndi halda, enda verðbólgan (2004-2008) lág í sögulegu ljósi. Á sama tíma sóttu erlendir fjármagnseigendur (t.d. KfW, þýski endurreisnarsjóðurinn, sem á talsvert af svonefndum jöklabréfum) í hávaxtabréf í íslenskum krónum. Við hrunið fór allt af stað, en sérstaka athygli vekur hversu gríðarlega hratt krónan veiktist. Hún gat einfaldlega ekki staðið undir háum vöxtum og haldist sterk lengi þar sem ekki var til að dreifa framleiðniaukningu í hagkerfinu, ólíkt því sem reyndin er í Japan. Japanska yenið styrktist sem aldrei fyrr enda vextirnir nálægt núlli og ekkert hægt að hækka þá í verðbólgulausu landi. Margir hafa spáð veikingu jensins undanfarna mánuði enda jenið allt of sterkt í ljósi vaxtaleysisins. Gríðarleg ásókn í jen til að endurgreiða lánin orsakar tímbundna styrkingu þess, sem samkvæmt Fisher (og almennri peningahagfræði) hlýtur að fara að snúast við er líður á árið. Við verðum bara að vona að hagfræðikenning Fisher og fleiri blífi.
Þróun NV á hagstofuvefnum:
http://hagstofa.is/Pages/95?NewsID=3969
Jens Pétur Jensen, 3.6.2009 kl. 22:52
Verðbólguhraðann er varasamt að meta út frá einum mánuði og þess vegna 14,4% ekki raunhæft viðmið. Ef við skoðum innihaldið betur sjáum við að húsnæðisliðurinn hækkar. Þeir sem þekkja húsnæðismarkaðinn er að hann er nánast hruninn og því um umtalsverða lækkun fasteigna að ræða. Þetta mælist ekki vegna þess að í mjög litlum viðskiptum eru makaskipti sem hafa hag af því að sýna háa krónutölu. Í næsta mánuði má búast við verðhækkunum en þær stafa af auknum sköttum stjórnvalda. Vexti ættum við að nota sem stýritæki til þess að keyra kerfið upp eða niður, og miðað við núverandi aðstæður ættum við að örfa hagkerfið og koma atvinnurekstrinum í gang.
Það eru fullt af öðrum mælikvörðum þar sem við getum metið hvort hagkerfið er að hitna eða kólna, á öllum þessum kvörðum erum við að nálgast frostmark. Ef við ætlum að bíða þar til alkuli er náð, þá verður of seint að lífga skepnuna við, því það þá er hún dauð! Það blikka öll aðvörunarljós, það ætti að duga til þess að taka við sér.
Sigurður Þorsteinsson, 3.6.2009 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.