16.1.2007
Steindór tvítugur í dag
Hann Steindór okkar er orðinn tuttugu ára. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Ég man eftir fæðingardeginum hans eins og hann hafi verið í gær. Steindór kom í heiminn á Fæðingarheimili Reykjavíkur kl. 14:15. Ég mátti ekki mikið seinni vera til að missa ekki af fæðingunni. Á þessum tíma vann ég á Iðntæknistofnun uppi á Keldnaholti. Ég hafði verið í einhverju fyrirtæki að vinna eða í umferðinni svo ekki náðist í mig þegar kallið kom. Á þessum tíma voru náttúrulega engir farsímar til. Þegar ég svo kom til baka upp á stofnun þá kallaði (öskraði) kerlingin í afgreiðslunni svo heyrðist um allt hús: "Jens þú átt að fara strax niður á Fæðingarheimili hún María er að fara að fæða". Ég þeystist niður í bæ og náði í tæka tíð. Allt gekk eins og í sögu. Steindór var með sérlega mjóa, langa og liðuga fætur að því er okkur fannst. Þess vegna líktum við honum stundum við frosk fyrstu dagana. Froskurinn er nú orðinn að prinsi og ef allt fer sem horfir þá verður hann stúdent frá MR í vor og lýkur miðstigi á píanó frá Nýja tónlistarskólanum á sama tíma. Það er engu logið þegar foreldrar segja að mesta gæfan sé fólgin í því að eignast heilbrigð börn. Þegar gæfa og gjörfuleiki bætist við er allt fullkomnað. Til hamingju með afmælið Steindór minn. Pabbi.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.