Vextir, verðbólga og gengi eru þríburar

Nauðsynlegt er að nafnvextir séu hærri en verðbólga á hverjum tíma. Séu þeir jafn háir fær lánveitandinn enga áhættupremíu, séu vextirnir lægri en verðbólgan fær lánveitandinn minni verðmæti greidd til baka en hann lánaði. Eina færa leiðin í þannig ástandi, til að forðast rýrnun peningalegra eigna, er að breyta yfir í gjaldmiðil sem býður hærri vexti. Þess vegna lækkar krónan um þessar mundir.

Séu vextirnir að frádreginni verðbólgu hér á landi lægri en í öðrum löndum, samfara töluverðri hættu á útlánatapi, er veiking krónunnar óhjákvæmileg. Fá ef nokkur önnur lögmál í hagfræði standast jafn vel og þessi sem hér eru tíunduð. Vextir, verðbólga og gengi gjaldmiðla eru kraftar af sama meiði. Líkt og þríburar taka þeir ætíð mið hvor af öðrum og geta ekki annað.

Lágvaxtasvæði (t.d.Sviss og Japan) einkennast af tveimur þáttum hið minnsta: Stöðugri og lágri verðbólgu annars vegar, og lítilli hættu á útlánatapi hins vegar. Þessu er alls ekki fyrir að fara á Íslandi og því er frekari vaxtalækkun ótímabær - því miður.

Vonandi stenst peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þrýstinginn frá samtökum atvinnurekenda og launþegasamtökunum okkur öllum til góðs. Lækki vextirnir niður fyrir verðbólgu er voðinn vís. Það er jafn víst og að nótt fylgir degi.

Höfundur er þjóðhagfræðingur frá háskólanum í Hamborg með áherslu á peningapólitík, og fyrrum sérfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun.


mbl.is Tveir vildu lækka vexti meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Pétur Jensen

Sæl. Einmitt Sandgerði, ég átti að vita það. Varðandi niðurfellingu á almennu verðtryggingunni þá hugsa ég aftur til 1987 er ég gerði skattskýrslu fyrir ungt fólk (á mínum aldri þá) sem hafði tveimur árum áður keypt sér íbúð í Ólafsvík. Kaupin fjármögnuðu þau með óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum. Á sama tíma hafði vinarfólk þeirra keypt sér íbúð í verkmannabústað á Ártúnsholti í Reykjavik. Hún var keypt með verðtryggðu láni frá íbúðalánasjóði. Ég gerði skattskýrslur fyrir báðar þessar fjölskyldur og tekjur þeirra voru alveg sambærilegar. Skemmst er frá því að segja að fjölskyldan í Ólafsvík missti allt sitt í verðbólguskotinu 1987-1989 (minni á að skattleysisárið var 1987) er afborganir lána ruku upp um tugi prósenta. Fjölskyldan í verkamannabústaðnum býr þar enn. Þetta er einfallt dæmi úr raunveruleikanum. Margir upplifa samskonar erfiðleika nú með erlendu lánin. Þau eru auðvitað ekki verðtryggð, en taka raunhækkunina út í gengisbreytingum í staðin. Staðreyndin er sú, að í verðbólgulandi eins og Íslandi er ekki hægt að stunda venjulega og heilbrigða lánastarfsemi nema með einhverskonar almennri verðtryggingu. Íslenska verðtryggingakerfið stendur undir íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Verkefnið felst ekki í því að afnema verðtrygginguna heldur að ráða niðurlögum verðbólgunnar til langs tíma. Takist okkur það þurfum við engar áhyggjur að hafa af verðtryggingunni því hún mun  sjálfkrafa deyja út. Verðbólgan er meinið, ekki verðtryggingin.

Þegar ég var yngri og nýbyrjaður á Þjóðhagsstofnun, þá var ég algerlega á móti verðtryggingunni, enda skyldi ég jákvæða virkni hennar til lengri tíma litið.  

Jens Pétur Jensen, 22.5.2009 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband