Skuggalegar tölur

Þegar ég las fréttina á mbl.is um 8,4% samdrátt í landsframleiðslu á II. ársfj. þá hugsaði ég sem svo að þeir hjá Mogganum/mbl.is þyrftu að vara sig á að auka ekki á neikvæðnina í þjóðfélaginu með því að ýkja hagtölur. Ég ákvað því að fletta tölunum upp á vef Hagstofu Íslands, www.hagstofa.is, og komast að hinu sanna í málinu. Ég hélt að þetta gæti ekki staðist.

Því miður er talan sem sýnir árstíðarleiðrétta ársbreytingu vergrar landsframleiðslu á Íslandi á II. ársfjórðungi 2010 heldur verri eða -8,6%. Þessi samdráttur kemur í kjölfarið á 6,5% samdrætti á I. ársfjórðungi þessa árs og sú tala í kjölfarið á 7,6% samdrætti á IV. ársfj. 2009, sem aftur kom í kjölfarið á 10,6% samdrætti landsframleiðslunnar á III. ársfj. 2009, en hún fylgdi 4,4% samdrætti á II. ársfjórðungi 2009, sem var sá sami (-4,4%) og samdrátturinn á I. ársfjórðungi 2009, sem var mikil aukning frá 0,3% samdrætti á hinum fræga IV. ársfjórðungi 2008 (hrunfjórðungnum). Það er almennt viðurkennt að landsframleiðsla þurfi að vaxa í tvo ársfjórðunga í röð svo hægt sé að tala um viðsnúning og að kreppu sé lokið - tímabundið. Það er því beinlínis afbökun að tala um að viðsnúningur hafi orðið í hagkerfinu. Þetta eru því miður skuggalegar tölur. 

En ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir (Mæðradagsstjórnin) hefur enn tækifæri til að láta til sín taka og örva hagkerfið - vilji hún það á annað borð. Án nýfjárfestinga gerist hins vegar ekkert, því ekkert verður til úr engu. Fari hjól atvinnulífsins ekki að snúast hraðar fljótlega (segjum að enginn samdráttur verði á I. ársfj. 2011) þá er tómt mál að tala um launahækkanir. Og án launahækkana mun einkaneyslan (mikilvægasti liður landsframleiðslunnar) standa í stað eða minnka enn frekar, sem aftur dregur úr viljanum til fjárfestinga og koll af kolli. Á þennan hnút verða stjórnvöld að skera á þessu ári, þ.e.a.s. ef þau hafa raunverulegan áhuga á að draga úr atvinnuleysi og auka hagvöxt. Viðhaldsverkefnin eru ágæt viðleitni, en það þarf miklu meira til. Skattalegar leiðir fyrir innlenda og ekki síður erlenda fjárfesta, einstaklinga jafnt sem fyrirtæki, eru þar nærtækastar.  


mbl.is Meiri samdráttur hér en hjá kreppuþjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

VANHÆF RÍKISSTJÓRN!

Sigurður Haraldsson, 8.9.2010 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband