Frambjóðendur til stjórnlagaþings

Sem oftar er ég hjartanlega sammála Púkanum, en þori þó ekki að orða hlutina eins umbúðalaust og hann. Eftir lesturinn á kynningarbæklingnum um frambjóðendur til stjórnlagaþingsins, er ég akkúrat engu nær um hverju þetta annars áhugasama fólk um velferð okkar hinna vill breyta í stjórnarskránni og ég er hræddur um að flest viti þau það ekki sjálf ef marka má bæklinginn. Ég átti orðastað við einn frambjóðandann, Björn Guðbrand, í heita pottinum um daginn (vissi reyndar ekki þá að hann væri í framboði). Hann vildi kjósa forsetann í beinni kosningu og veita honum alvöruvald á við Frakklandsforseta, og sagði jafnframt að með þessu yrði valddreifingin MEIRI. Heyr á endemi! Núverandi þingræði og ráðherraræði dreifir valdinu nokkuð jafnt milli ráðherranna og þeir einir mynda ríkisstjórnina hverju sinni. Og vel að merkja þá fer hver og einn ráðherra persónulega með vald sitt, ekki flokkurinn eins og margir halda.

Við höfum því sem kjósendur nokkuð beinan aðgang að 8-12 manneskjum sem fara með framkvæmdarvaldið hverju sinni. Fækkun ráðherra þýðir minni valddreifingu og superforseti að frönskum eða bandarískum sið þýddi enn meiri samanþjöppun valdsins. Óþolandi er hvað sumt af þessu fólki sem er í framboði veit í raun lítið um það sem það ætlar að fjalla um. Hvar eru sérfræðingarnir? Ég sé ekki betur en að okkar ágæta stjórnarskrá (lög nr. 37/1944) hafi bara reynst okkur ágætlega - líka undanfarin tvö ár þegar verulega hefur reynt á hana og grundvallarlögin sem hún geymir. Ef ekkert bitastætt kemur fram hjá einhverjum alvöruframbjóðendum til stjórnlagaþings, er sennilega best að sita heima á kjördag. Lítil þátttaka myndi gelda þingið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir því sem ég kemst næst er forsetinn nú þegar kosinn í beinni kosningu og þannig hefur það ávallt verið.  Varðandi vald forsetans ... samkvæmt stjórnarskrá hefur forsetinn töluvert vald og nokkrir lögspekingar hafa leitt að því rök að þau völd eru á svipuðu róli og völd Frakklandsforseta.  Hins vegar hafa hefðir og fordæmi gert það að verkum að forseti Íslands hafi leikið nokkurskonar pólitísku aukahlutverki. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 17.11.2010 kl. 14:29

2 Smámynd: Eiríkur Mörk Valsson

Sæll, Jens Pétur

Er einn af þessum fáu frambjóðendum. Mér finnst þú nokkuð dómharður um fátæklegar upplýsingar frá frambjóðendum, birtar í bæklingnum. Plássið sem hver fékk var "700 slög", í pistlinum þínum hér að ofan nær það yfir textann til og með "heyr á endemi". Svo okkur er nokkur vorkunn en vafalaust fleiri en ég sem hefðu getað nýtt pássið betur.

Úr því að ég er byrjaður get ég ekki á mér setið að segja að við virðumst á nokkuð svipaðri línu hvað varðar þingræði og "handhafa framkvæmdavaldsins". Hvet þig og aðra til að kjósa!

Bestu kveðjur úr Kópavogi

Eiríkur Mörk Valsson, 17.11.2010 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband