Afturköllun aðildarumsóknar getur þýtt uppnám EES

Ungir og áhugasamir einstaklingar um stjórnmál, t.d. nýkjörin forysta Sjálfstæðisflokksins, ættu að gefa sér tíma og lesa pistla Þorsteins Pálssonar, í laugardagsblaði Fréttablaðsins. Þorsteinn skrifar um stjórnmál samtímans af djúpri þekkingu á viðfangsefninu. Hann er á hærra plani en gengur og gerist í íslenskri þjóðmálaumræðu og af honum geta flestir lært. Ólíklegt er þó að Þorsteinn Pálsson verði aftur formaður flokksins, eins og ýmsir hafa stungið upp á undanfarið, eða hann vilji það. Hins vegar ætti ung og lítt reynd forystusveit Sjálfstæðisflokksins að leita í smiðju Þorsteins, frekar en til Davíðs Oddssonar. Það yrði gæfuspor. Davíð er eins og hann hefur alltaf verið, bæði fyrirsjáanlegur og hvass, og óþarfi að láta það fara í taugarnar á sér. Þannig einstaklingar eru sjaldnast hættulegir en oft velmeinandi og skemmtilegir. EES-samningurinn var, og er enn, hugsaður sem undirbúningur fyrir fulla aðild þjóðríkis að Evrópusambandinu. Um þetta er ekki ágreiningur hjá þeim sem til þekkja. Bendi t.d. á skrif Stebba Jóh. (form. samninganefndarinnar) í þeim efnum. Það er frekar spurningin um hvenær heldur en hvort Ísland fær fulla aðild að sambandinu. Ætli Ísland sér hins vegar aldrei að ganga í Evrópusambandið væri rökrétt að segja upp EES-samningnum. Hinn mikli og hljóðláti meirihluti í Sjálfstæðisflokknum (D.O. talar gjarnan um háværan og fyrirferðamikinn minnihluta, sem aðhyllist ESB) þarf að svara því hvort hann vilji segja upp EES-samningnum því alls er óvíst að Evrópusambandið myndi vilja viðhalda honum eftir að aðildarumsóknin hefur verið dregin til baka, eins og hin unga og lítt reynda forysta Sjálfstæðisflokksins virðist vilja.

Það kemur svo í ljós með haustinu hvort Bjarni og Ólöf leggja fram tillögu á Alþingi um að aðildarviðræðunum við ESB verði hætt. Maður trúir því ekki fyrr en á reynir. Fari svo verður kominn upp alveg ný staða í íslenskum stjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband